Umhverfi

Umhverfismál

Umhverfismál fela í sér eina stærstu áskorun sjávarútvegsins og hefur mikil vinna farið fram svo að ná megi utan um umhverfisáhrif félagsins á stafrænan hátt og minnka skaðsemi þeirra. Sú vegferð hefur síðustu ár skilað sér í árlegum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda. Losun gróðurhúsalofttegunda HB Granda dróst saman um 9,8% á árinu 2017 miðað við árið 2016 þó svo að heildarveiði hafi aukist á sama tímabili úr 141.855 tonnum í 152.868 tonn.

Ástæðuna má rekja til margvíslegra þátta og atburða en árið hófst á sjómannaverkfalli sem stóð fram í miðjan febrúar. Færri og afkastameiri skip nýta eldsneytið nú betur en áður; með endurnýjun flotans hefur HB Grandi alfarið hætt notkun á svartolíu og á sama tíma aukið hlut vistvænni orkugjafa, meðal annars með því að tengja skip við rafmagn þegar þau leggjast að bryggju. Hið sama gildir um fiskmjölsverksmiðjur félagsins, sem áður voru keyrðar á olíu en eru í dag að mestu leyti rafvæddar líkt og aðrar vinnslustöðvar í landi, sem um árabil hafa keyrt á rafmagni og verið þróaðar til að fullnýta allt hráefni, draga úr sóun og skapa aukin verðmæti í leiðinni.

Umhverfismælaborð HB Granda sýnir með stafrænni tækni alla helstu þætti umhverfismála félagsins þannig að styðja megi við markmið um bætt vistspor og þær aðgerðir sem ráðist er í hverju sinni. Til að tryggja áreiðanleika og tíðni umhverfisuppgjöra HB Granda þá byggist söfnun umhverfisupplýsinga á sjálfvirkri gagnasöfnun frá meginstarfsemi og birgjum félagsins en þannig er hægt að fylgjast með ávinningi af einstökum aðgerðum í umhverfismálum.

HB Grandi hlaut umhverfisverðlaun Festu og Reykjavíkurborgar í desember 2017

Ábyrgar fiskveiðar

Fiskveiðiauðlindin við Ísland er endurnýjanleg svo framarlega sem fiskveiðar eru stundaðar á ábyrgan hátt. Góður árangur íslensks sjávarútvegs í umhverfismálum er því ekki síst að þakka ábyrgri nýtingu á fiskistofnum. Vísindaleg varúðarnálgun við ákvörðun á aflareglu fyrir hverja fisktegund er grundvöllur aflamarks. Fiskistofnar eru í betra ásigkomulagi eftir að núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi var tekið upp, betra er að skipuleggja veiðar og auðveldara fyrir skipin að leita að fisknum, en í kjölfarið hafa veiðitúrar styst. Ábyrgar veiðar hafa hvatt til nýsköpunar þar sem meiri áhersla hefur verið lögð á betri nýtingu á aflanum og leitað lausna um að skapa aukið virði og draga úr kostnaði.

HB Grandi tekur virkan þátt í samstarfi sem stuðlar að sjálfbærri nýtingu fiskistofna, gæðum og ábyrgð gagnvart umhverfi og samfélagi. Markmiðið með þátttöku HB Granda er að stuðla að áframhaldandi styrkingu fiskistofna, framþróun í fyrirtækinu og atvinnugreininni, aukinni samvinnu og tryggja markaðsaðgengi.

Ábyrgar fiskveiðar ses. stendur fyrir upprunamerki fyrir íslenskar sjávarafurðir undir merkjum Iceland Responsible Fisheries og vottun á ábyrgum fiskveiðum Íslendinga. Markaðssetning á merkinu er í höndum Íslandsstofu og á HB Grandi fulltrúa í stjórn Ábyrgra fiskveiða og fagráði sjávarútvegs hjá Íslandsstofu.

HB Grandi er jafnframt hluthafi í Icelandic Sustainable Fisheries ehf. sem hefur þann tilgang að afla vottana gagnvart staðli Marine Stewardship Council (MSC). Þátttaka í félaginu veitir aðgang að MSC-vottunum fiskistofna við Ísland.

HB Grandi er einnig bakhjarl samtakanna Global Sustainable Seafood Initiative (GSSI). Markmiðið með starfsemi GSSI er að auka gagnsæi í vottunum um sjálfbærni í sjávarútvegi og fiskeldi. Fyrirtæki með aðild að GSSI hafa skuldbundið sig til að viðurkenna vottunarverkefni sem standast GSSI-úttekt þegar kemur að sölu sjávarafurða.

Samstarf í umhverfismálum

Áhyggjur þjóða af vaxandi mengun lands og sjávar hafa knúið á um alþjóðlegt átak til að sporna við áframhaldandi aukningu mengunar. Ísland mun leitast við að ná sameiginlegu markmiði með ríkjum ESB og Noregi, eða um 40% minnkun í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030 miðað við 1990, að vissum forsendum uppfylltum. Margt bendir til þess að ástand hafsins sé að breytast hratt til hins verra og að súrnun sjávar, hlýnun og fleiri umhverfisþættir komi til með að ógna lífríki hafs og jarðar á komandi árum.

Mengun hafsins er bein ógn við afkomu sjávarútvegs á Íslandi. HB Grandi mun leita allra leiða til að minnka mengun frá eigin starfsemi og halda áfram að þróa rekstur sinn til sjálfbærra veiða og vinnslu. Í takt við þá stefnu félagsins undirritaði HB Grandi, ásamt 103 öðrum íslenskum fyrirtækjum og stofnunum, yfirlýsingu um markmið í loftslagsmálum þann 16. nóvember 2015 í Höfða. Yfirlýsingin var afhent í tengslum við loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem fram fór í París í desember 2015. Reykjavíkurborg og Festa, miðstöð um samfélagsábyrgð fyrirtækja, hafa haldið utan um yfirlýsingu fyrirtækjanna og fylgja henni eftir með fræðslu sem boðið hefur verið upp á í tengslum við verkefnið. Markmið loftslagsverkefnisins eru að

  • draga úr losun gróðurhúsalofttegunda,
  • minnka myndun úrgangs,
  • mæla árangurinn og gefa reglulega út upplýsingar um stöðu ofangreindra þátta.

Losun gróðurhúsalofttegunda minnkaði um 9,8% á milli áranna 2016 og 2017 og vel hefur tekist að minnka hlutfall úrgangs til urðunar. Upplýsingar um árangur í umhverfismálum eru nú gefnar út í annað sinn.

Losun gróðurhúsalofttegunda HB Granda dróst saman um 9,8% frá fyrra ári

Hrein virðiskeðja sjávarútvegs

Með því að skrá markvisst umhverfisþætti í starfsemi okkar fáum við stöðuna í rauntíma og nákvæmt yfirlit um þróun mála svo við sjáum hvar við getum gert betur. HB Grandi hefur sett af stað umfangsmikið umhverfisverkefni undir yfirskriftinni „Hrein virðiskeðja sjávarútvegs“ (HVS).

Öllum umhverfisupplýsingum er varða rekstur félagsins er streymt stafrænt frá upprunastað, hvort sem er frá sjó eða landi, í þar til gerðan umhverfisgagnagrunn. Grunnurinn gerir upplýsingar aðgengilegar fyrir ábyrgðaraðila félagsins í þeim tilgangi að nýta á markvissan hátt til aðgerða sem hafa þann tilgang að draga úr umhverfisáhrifum HB Granda. Hluti hugbúnaðarins tryggir að HB Grandi geti fylgt umhverfislöggjöf á hverjum tíma og getur einnig veitt stjórnvöldum aðgang til stafræns eftirlits. Þótt hugbúnaðurinn hafi verið tekinn í notkun í júní 2016 verður hann áfram í þróun og er innleiðing þess innan félagsins í fullum gangi.

HVS-verkefnið felur m.a. í sér eftirfarandi meginþætti:

  • Að tryggja þekkingaruppbyggingu á öllum þáttum umhverfisáhrifa frá starfsemi félagsins í gegnum alla virðiskeðjuna (frá veiðum til markaðar).
  • Að draga með markvissum hætti úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi félagsins.
  • Að minnka úrgangsmyndun og tryggja betri flokkun á úrgangi.
  • Að tryggja mælanleika og markmiðasetningu í umhverfismálum.
  • Að bæta rekstur og ábyrgð gagnvart umhverfinu.
  • Að styðja við landsmarkmið Íslands í loftlagsmálum.

Þetta felur í sér notkun tæknilegrar þekkingar til að þróa hjá HB Granda nýja og endurbætta verkferla sem munu umbylta getu félagsins til að stýra starfsemi þess í takt við markmið á sviði umhverfis- og orkustjórnunar.

Eldsneytisnotkun

Olíunotkun skipa HB Granda hefur minnkað verulega í kjölfar sameiningar við fjölmargar útgerðir allt frá árinu 1985. Hagræðingin hefur m.a. falist í því að taka á annan tug skipa úr rekstri. HB Grandi gerir nú út átta skip, sem er einu færra en Grandi gerði árið 1985, þrátt fyrir samruna við mörg önnur félög eftir sameiningu BÚR og Ísbjarnarins. Þessar sameiningar hafa falið í sér að veiðiheimildir félagsins hafa nánast þrefaldast þótt skipunum hafi ekki fjölgað. Sambærileg þróun hefur átt sér stað meðal annarra sjávarútvegsfyrirtækja um land allt.

Mikil tækniþróun hefur átt sér stað á síðustu árum og mikið um nýja þekkingu og færni við veiðar. Einnig hefur orðið framþróun í fiskileit, þróun veiðarfæra, veiðitækni og meðhöndlun afla um borð. Af þessum sökum og ýmsum öðrum hefur afli á sóknareiningu nær þrefaldast á tímabilinu.

Hlutfall af hreinu jarðefnaeldsneyti (e. Marine Gas Oil) jókst úr 1,7% 2016 í 31,2% árið 2017. Eftir að brennslu svartolíu var hætt hefur losun á aukaefnum vegna brennslu jarðefnaeldsneytis, s.s. brennisteins, nituroxíðs og sótagna (e. PM), orðið að óverulegum hluta í losun félagsins.

Eftirfarandi mynd sýnir eldsneytisnotkun HB Granda síðustu tvö árin:

Eldsneytisnotkun

Skip

Eldsneytisnotkun skipa dróst saman um tvær milljónir lítra á milli áranna 2016 og 2017 sem nemur 9,5% samdrætti á eldsneyti. Markmið félagsins er að draga enn frekar úr olíunotkun skipaflotans bæði með kaupum á nýjum skipum og innleiðingu á öflugri upplýsingatækni sem tryggir heildstæða rauntímayfirsýn um olíunotkun skipastólsins. Tekin var ákvörðun á árinu 2017 um að hætta alfarið notkun svartolíu á skip hjá HB Granda.

Notkun svartolíu hefur alfarið verið hætt hjá HB Granda

Fiskmjölsverksmiðjur og vinnslur

Fiskmjölsverksmiðjur félagsins, sem áður voru keyrðar á jarðefnaeldsneyti, eru í dag að mestu leyti rafvæddar og er leitast við að nota raforku í stað eldsneytis þegar framboð leyfir. Eldsneytisnotkun fiskmjölsverksmiðjanna minnkaði um 24% á milli áranna 2016 og 2017. Notkun svartolíu til framleiðslu fiskmjöls var alveg hætt á árinu 2017. Í stað svartolíu er notuð MDO olía (e.Marine Diesel Oil) á Akranesi og MGO olía (e. Marine Gas Oil) á Vopnafirði. Báðar olíurnar hafa mun minni umhverfisáhrif en svartolía.

Markmið félagsins er að færa sig enn frekar yfir í umhverfisvænni eldsneytistegundir á næstu árum. Með samningum um samkeppnishæft raforkuverð til fiskmjölsverksmiðja má reikna með að hlutur raforkunotkunar aukist á kostnað olíunotkunar í framtíðinni.

Bifreiðar og tæki

Eldsneytisnotkun bifreiða og tækja er lítil samanborið við skipaflota en hún jókst um 25% á tímabilinu 2016 til 2017. Notkunin nemur 57.231 lítrum sem er notkun upp á að meðaltali 2.290 lítra fyrir hvern bíl HB Granda.

HB Grandi hefur tekið þrjá rafmagnsbíla og tvo tvinnbíla í notkun á undanförnum þremur árum. Samhliða því hefur félagið sett upp hleðslustöðvar fyrir bifreiðar félagsins, starfsfólk og gesti.

Raforkunotkun

Á árinu 2017 var raforkunotkun HB Granda 63.062.436 kWst en árið 2016 nam raforkunotkunin 48.690.008 kWst. Aukningin í notkun raforku á tímabilinu var því tæplega 30%. Þessi jákvæða þróun í notkun endurnýjanlegrar raforku hefur gert félaginu mögulegt að draga verulega úr notkun á jarðefnaeldsneyti. Á árinu 2016 bjó félagið við verulega skertan aðgang að raforku sem varð til þess að jarðefnaeldsneyti var notað í stað raforku.

HB Grandi lítur svo á að raforka á Íslandi sé græn og því sé mikilvægt að nýta raforku í stað jarðefnaeldsneytis þar sem mögulegt er. Helstu tækifæri HB Granda til að nýta raforku í stað jarðefnaeldsneytis er við framleiðslu á fiskmjöli. Einnig felast tækifæri í því að tengja skipin við landrafmagn þegar þau eru bundin við bryggju. Áfram verður unnið að báðum verkefnum á næstu árum.

Árið 2017 jókst raforkunotkun um 30%. Sú aukning var á kostnað eldsneytis. Markmið HB Granda er að auka hlut vistvænni orkugjafa enn frekar.

Raforkunotkun starfsstöðva

Úrgangur

Við flokkum sorp, hvort sem það fellur til á sjó eða í landi, og endurnýtum það eins og hægt er. HB Grandi hefur síðustu ár skipulagt mikið flokkunar- og umhverfisstarf með það markmið að lágmarka þann úrgang félagsins sem fer í urðun. Sorpflokkunarverkefni hófst fyrir átta árum á Vopnafirði að frumkvæði starfsfólks og eru í dag starfræktar flokkunarstöðvar á öllum starfsstöðvum félagsins. Þær taka jafnt á móti sorpi sem kemur frá skipum og vegna starfsemi í landi. Mikill árangur hefur náðst á árinu og er hlutfall flokkaðs sorps komið upp í 78%.

Flokkunarhlutfall rekstrarúrgangs

Mikill árangur hefur náðst á árinu og er hlutfall flokkaðs sorps komið upp í 78%

Heildarmagn úrgangs

Snjallgámur - snjallvog

HB Grandi er með þrjár fullbúnar flokkunarstöðvar fyrir annars vegar almennan úrgang og hins vegar endurvinnsluhráefni. Þessar þrjár flokkunarstöðvar, Bragginn á Vopnafirði, Kistan á Akarnesi og Svanurinn í Reykjavík, eru fullbúnar flokkunarstöðvar þar sem stafrænum lausnum er beitt bæði hvað varðar skráningu á almennum úrgangi og endurvinnsluhráefni.

Fyrir almennan úrgang, sem fer að mestu leyti í urðun, er notaður svokallaður „snjallgámur“. Allur úrgangur, sem fer inn í hann, er skráður á þá deild þar sem hann á uppruna sinn. Gámurinn er með vog sem skilar upplýsingum um magn úrgangs inn í umhverfisgagnagrunn félagsins. Allt endurvinnsluhráefni er flokkað eftir skilgreindu flokkunarkerfi. Hver endurvinnsluflokkur er vigtaður með „snjallvog“ og merktur með úrvinnsluleið í umhverfisgagnagrunn félagsins.

Í umhverfisgagnagrunni HB Granda er haldið sérstaklega utan um alla skráningu á úrgangi, þ.e. magn, tegund, úrvinnsluleið, förgunarleið og uppruna á almennum úrgangi.

Fyrsti snjallgámurinn varð að veruleika í ágúst 2017 í Kistunni, flokkunarstöð HB Granda á Akranesi. Hjá HB Granda starfar sérþjálfað starfsfólk sem vinnur við bestu aðstæður á starfssvæðum félagsins í sérútbúnum flokkunarstöðvum. Snjallgámar og snjallvogir verða einnig komnar í notkun á Vopnafirði og í Reykjavík í byrjun árs 2018.

Fyrsti snjallgámurinn varð að veruleika í ágúst 2017 í Kistunni, flokkunarstöð HB Granda á Akranesi

Ráðstöfun úrgangsolíu

Í öllum skipum HB Granda fellur reglulega til úrgangsolía sem fer til endurvinnslu hjá Olíudreifingu ehf. og Skeljungi hf. Olíudreifing og Skeljungur eru verktakar Úrvinnslusjóðs um söfnun og endurvinnslu úrgangsolíu samkvæmt samningi við Úrvinnslusjóð og er sú starfsemi fjármögnuð með úrvinnslugjaldi sem lagt er á smurolíu við innflutning samkvæmt lögum.

Úrgangsolía er að mestu til komin vegna smurolíuskipta í vélum skipanna en einnig, að minni hluta, frá eldsneytisolíu og glussaolíu. Hún er endurunnin og seld sem verksmiðjuolía. Þessari úrgangsolíu safna skipin í sérstakan tank sem staðsettur er um borð og er í umsjá vélstjóra. Tankurinn er tæmdur eftir þörfum í tankbíl sem endurvinnsluaðili sendir til skipsins þegar þörf er á tæmingu.

Ráðstöfun veiðarfæraúrgangs

Hampiðjan tekur á móti öllum veiðarfæraúrgangi frá HB Granda. Áhafnir skipa félagsins eða starfsfólk flokkunarstöðva þess sker burt ýmsa nytjahluti. Hampiðjan sker burt þá nytjahluti sem eftir eru. Þeir efnisbútar, sem ekki eru hæfir til endurvinnslu, eru sigtaðir burt og sendir í urðun hérlendis. Hampiðjan sendir allan endurvinnanlegan veiðarfæraúrgang úr landi og er hann seldur til erlendra endurvinnslustöðva.

Endurvinnslustöðvarnar þvo veiðarfæraúrganginn og er hann hakkaður niður í smáar agnir og síðan flokkaður sjálfvirkt með þar til gerðri tækni. Endanleg vara er hráefni til plastgerðar. Togvírar eru bútaðir í grandara sem HB Grandi endurnýtir.

Hampiðjan vinnur náið með Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) og skilar til SFS tölum yfir útflutt magn veiðarfæraúrgangs frá HB Granda og öðrum sjávarútvegsfélögum sem áframsendir þær upplýsingar til Úrvinnslusjóðs samkvæmt samningi við sjóðinn.

SFS er með samning við Úrvinnslusjóð um að samtökin beri ábyrgð á að úrgangsveiðarfæri úr gerviefnum séu endurunnin. Um leið er nýtt heimild til undanþágu á úrvinnslugjaldi á veiðarfærum úr gerviefnum. Ekki er tekið skilagjald en þess í stað ber SFS ábyrgð á verkefninu fyrir hönd sjávarútvegsins.

Ekki urðu nein tjón á árinu þannig að veiðarfæri yrðu eftir í sjó.

Ráðstöfun veiðarfæraúrgangs

Samgöngustefna

Markmiðið með samgöngustefnu HB Granda er að hvetja starfsfólk félagsins til að nota vistvænan, hagkvæman og heilsusamlegan ferðamáta. Félagið vill einnig sýna gott fordæmi með því að auka vitund starfsfólks um vistvænar samgöngur og jafnframt leggja sitt af mörkum til að bæta umhverfið og heilsu starfsmanna sinna og annarra.

Samgöngusamningur stendur því starfsfólki til boða sem hefur unnið lengur en þrjá mánuði hjá HB Granda eða er fastráðið og getur skuldbundið sig til að nota vistvænan ferðamáta til og frá vinnu, t.d. með því að ganga, hjóla, hlaupa eða nota almenningssamgöngur. Samningurinn gildir að hámarki í tólf mánuði frá undirritun hans og er uppsegjanlegur af hálfu beggja aðila með eins mánaðar fyrirvara.

Í lok árs 2017 voru 156 starfsmenn HB Granda með samgöngusamning.

Uppgjör og aðferðafræði

Umhverfisuppgjörið hér að neðan inniheldur yfirlit yfir helstu þætti umhverfismála hjá HB Granda. Gögnin innihalda alla starfsemi HB Granda að undanskildum dótturfélögum.

Aðferðafræðin sem er notuð til að skilgreina eigin virðiskeðju og mengunarþætti hennar byggist á Greenhouse Gas Protocol, staðlaðri aðferðafræði sem fjöldi fyrirtækja hefur innleitt með góðum árangri.

Lykiltölur

Eining 2016 2017
Kolefnisuppgjör
Umfang 1 tCO2í 64.421 57.815
Umfang 2 - 818 1.059
Umfang 3 - 94 85
Kolefnisspor, heild tCO2í 65.333 58.959
Samdráttur í losun 4,7% 9,8%
Orkunotkun
Orka vegna notkunar jarðefnaeldsneytis kWh 271.398.866 243.089.969
Raforkunotkun kWh 48.690.008 63.062.436
Orka frá heitu vatni til húshitunar kWh 31.955.872 41.388.581
Heildarorkunotkun kWh 352.044.746 347.540.986
Eldsneytisnotkun bifreiða og tækja lítr. 45.925 57.231
Eldsneytisnotkun fiskmjölsverksmiðja lítr. 1.431.892 1.052.625
Eldsneytisnotkun skipaflota lítr. 21.858.285 19.792.119
Heildareldsneytisnotkun lítr. 23.336.102 20.901.975
Hlutfall endurnýjanlegrar orku % 22,9% 30,1%
Hlutfall endurnýjanlegrar raforku % 100% 100%
Hlutfall skipagasolíu af heild (MGO) % 1,7% 31,2%
Neysluvatnsnotkun
Heildarnotkun á neysluvatni m3 768.998 732.604
Myndun úrgangs og úrvinnsla
Flokkaður úrgangur - 1.267.953 910.383
Óflokkaður úrgangur - 355.567 216.290
Heildarmagn úrgangs kg 1.623.520 1.126.673
Almennur rekstrarúrgangur - 852.470 835.667
     Þar af flokkaður úrgangur - 496.903 652.603
     Þar af óflokkaður úrgangur - 355.567 183.064
Hlutfall flokkaðs rekstrarúrgangs % 58,3% 78,1%
Framkvæmdaúrgangur kg 576.040 159.820
Lífrænn úrgangur frá framleiðsluferlum kg 195.010 131.186
Hlutfall flokkaðs úrgangs (með frkv úrg.) % 78,1% 80,8%
Rekstrarúrgangur til endurvinnslu kg 461.288 591.120
Rekstrarúrgangur til urðunar kg 391.182 244.547
Hlutfall endurunnins rekstrarúrgangs % 54,1% 70,7%
Pappírsnotkun skrifstofu
Heildarmagn prentaðs pappírs blaðsíður 172.665 184.275
     Þar af litaprentun - 111.066 131.605
     Þar af svarthvít prentun - 61.599 52.670
     Þar af prentun á báðar hliðar - 42.948 41.552
Veiði
Veiði ísfisktogara tonn 25.277 24.548
Veiði uppsjávarskipa tonn 95.594 109.281
Veiði frystitogara tonn 20.984 19.039
Heildarveiði tonn 141.855 152.868
Eldsneytisnotkun skipaflota
Eldsneytisnotkun ísfisktogara - 6.145.171 5.826.412
     Olíunotkun/veitt tonn (VT) lítr./VT 243 237
     Losun GHL ísfisktogara tCO2í 17.108 16.221
     Losun GHL/veitt tonn (VT) tCO2í/VT 0,68 0,66
Eldsneytisnotkun uppsjávarskipa lítr. 6.277.210 6.593.351
     Olíunotkun/veitt tonn (VT) lítr./VT 65,67 60,33
     Losun GHL uppsjávarskipa tCO2í 17.476 18.356
     Losun GHL/veitt tonn (VT) tCO2í/VT 0,18 0,17
Eldsneytisnotkun frystitogara lítr. 9.225.905 7.372.356
     Olíunotkun/veitt tonn (VT) lítr./VT 440 387
     Losun GHL frystitogara tCO2í 25.685 20.525
     Losun GHL /veitt tonn (VT) tCO2í/VT 1,22 1,08
Heildareldsneytisnotkun skipaflotans lítr. 21.648.286 19.792.119
Lykiltölur
Heildarvelta m€ 201 217
Fjöldi ársverka fj.áv. 859 839
Heildarkolefnisskattur kr. 142.479.579 133.640.141
Fjöldi mannvirkja fj. 26 26
     Stærð húsnæðis m2 59.394 59.394
Fjöldi skipa í rekstri að meðaltali yfir árið fj. 9,0 8,9
     Þar af ísfisktogarar - 4,0 4,0
     Þar af frystitogarar - 3,0 2,9
     Þar af uppsjávarskip - 2,0 2,0
Fjöldi bifreiða fj. - 25
     Þar af rafmagnsbílar - - 3
     Þar af tengitvinbílar - - 2