Starfsfólk

Starfsfólk

HB Grandi hefur sett sér markmið um að vinna að sem bestu starfsumhverfi fyrir starfsfólk sitt. Í starfsmannastefnu sinni leggur félagið áherslu á að að innan þess starfi hæft og traust starfsfólk sem tryggir, af fagmennsku og ábyrgð, sjálfbæra nýtingu og hagkvæmni í umgengni við auðlindirnar.

Á árinu 2017 voru að meðaltali 839 stöðugildi hjá samstæðunni miðað við heilsársstörf, en þau voru 858 á árinu 2016. Hjá HB Granda voru á árinu 2017 243 stöðugildi á sjó og 510 í landi, en 241 á sjó og 532 á landi á árinu 2016.

Stöðugildi

Kynjahlutfall starfsfólks í prósentum

Stjórnendum og starfsfólki er annt um vellíðan og heilbrigði samstarfsfólks síns. HB Grandi er fjölskylduvænn vinnustaður þar sem leitast er við að hafa gott vinnuskipulag sem tryggir að starfsfólk hafi góðan frítíma og að jafnvægis sé gætts milli starfstíma annars vegar og fjölskyldu- og einkalífs hins vegar. Félagið veitir gott vinnuumhverfi, öryggi og góðan aðbúnað starfsmanna. Starfsfólki félagsins stendur til boða heilsufarsskoðun sér að kostnaðarlausu. Unnið er markvisst að því að fá upplýsingar um stöðu þeirra atriða sem starfsmannastefnan tekur til og aðgerðaáætlanir reglulega uppfærðar í því skyni að ná fram þeim markmiðum sem stefnt er að á hverjum tíma.

Stofnað var mannauðssvið í nóvember 2017. Það ber ábyrgð á mannauðsmálum félagsins, veitir stjórnendum faglega ráðgjöf og stuðning varðandi mannauðsmál og túlkun kjarasamninga og hefur umsjón með starfsmannastefnu, starfsþróun og fræðslu, þróun hópvinnukerfa og innri vefs, móttöku og mötuneyti í Norðurgarði.

Jafnlaunavottun

Hafin var vinna við jafnlaunavottun á árinu 2017 og er markmiðið að henni ljúki fyrir lok árs 2018. Meginmarkmið jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Samkvæmt þessum nýju kröfum skal jafnlaunavottun byggjast á jafnlaunastaðlinum ÍST 85. Félagið hefur unnið samkvæmt aðgerðaráætlun í jafnréttismálum sl. ár og fellur þessi vinna vel að þeim markmiðum sem unnið er eftir. Hlutfall karla er hærra en kvenna hjá félaginu, en þriðjungur starfsmanna eru konur. Á skipum félagsins hallar mest á konur en hlutfallið er jafnara í fiskiðjuverum félagsins og skrifstofu. Félagið vill leitast við að jafna hlut karla og kvenna í ólíkum starfshópum. Óheimilt er að mismuna starfsfólki hjá HB Granda vegna kyns, kynhneigðar eða uppruna.

Félagið hefur unnið samkvæmt aðgerðaráætlun í jafnréttismálum

Persónuverndarlöggjöf

Félagið hóf að endurskoða og skrá ferli sem snúa að auknum og breyttum kröfum laga um persónuvernd, en þær eiga rætur að rekja til breytinga á löggjöf Evrópusambandsins á þessu sviði. Löggjöfin tekur gildi þann 25. maí 2018 innan aðildarríkja Evrópusambandsins. Frumvarpsdrög til laga um persónuvernd hafa verið lögð fram, en skv. drögunum eiga ný persónuverndarlög að taka gildi við samþykkt þeirra á Alþingi. Stefnt er að því að ljúka afgreiðslu frumvarpsins á vorþingi 2018. Innleiðing nýju reglnanna felur í sér auknar kröfur um innra eftirlit fyrirtækja og upplýsingaskyldu til einstaklinga og persónuverndaryfirvalda. Með nýjum reglum aukast jafnframt heimildir yfirvalda til að beita sektum og birta upplýsingar um þau fyrirtæki sem sinna ekki skyldum sínum á þessu sviði. Félagið hefur skráð þau ferli sem eiga við og er reiðubúið að takast á við þessar auknu kröfur sem gerðar hafa verið.

Nýtt upplýsingakerfi mannauðsmála

Hafist var handa við að skoða hvernig bæta megi upplýsingakerfi félagsins á sviði mannauðsmála, en á undanförnum misserum hafa komið fram auknar kröfur um aðgengi að yfirgripsmeiri og ýtarlegri upplýsingum um starfsemi fyrirtækja og er HB Grandi þar ekki undanskilið. Sem dæmi má nefna aukna umræðu um samfélagsábyrgð og kröfur vottunaraðila um margs konar upplýsingar sem snerta mannauðsmál félagsins. Stefnt er að því að vinna að markvissri upplýsingagjöf um þætti mannauðsmála á sviði samfélagsábyrgðar félagsins.

Jafnframt hófst endurskoðun fræðslu- og starfsþróunarmála félagsins. Starfsþróun felst í því að gefa starfsfólki tækifæri til að þróa áfram færni sína, þekkingu og viðhorf og nýta þannig hæfileika sína til að dafna í starfi. Starfsþróun er á ábyrgð starfsmanns og stjórnanda. Markmiðið með að innleiða rafræna fræðslu er að ná til allra starfsmanna félagsins á öllum starfsstöðvum. Meirihluti starfsfólks félagsins sækir reglubundin námskeið, sem annaðhvort eru forsenda starfa þeirra hjá félaginu eða nauðsynleg til að viðhalda tilteknum starfsréttindum. Til dæmis hafa verið haldin námskeið fyrir starfsfólk í fisksvinnslu skv. ákvæðum kjarasamninga og ýmis réttindanámskeið sem starfsfólk sækir til að afla og viðhalda réttindum sínum á sjó og í landi. Endurmenntunar- og fræðsluaðilar eru fjölmargir og á félagið gott samstarf við þá.

Mannréttindi og kjarasamningar

HB Grandi virðir almenn mannréttindi, rétt til félagafrelsis og kjarasamninga. Verktökum og undirverktökum ber að fara eftir gildandi lögum í landinu, óháð því hvort þeir eru launþegar eða sjálfstætt starfandi undirverktakar. Félagið virðir gildandi kjarasamninga og önnur lögbundin réttindi starfsfólks, meðal annars til orlofs, fæðingarorlofs, launa vegna óvinnufærni af völdum veikinda eða slysa, auk annarra réttinda sem tekið er á í gildandi kjarasamningum á hverju starfssvæði félagsins.​ Í gegnum aðild félagsins að Samtökum atvinnulífsins á félagið samskipti við 27 stéttarfélög og samtök stéttarfélaga um kaup og kjör starfsfólks félagsins. Langflest starfsfólk félagsins er í stéttarfélögum. Um 3% alls starfsfólks standa utan stéttarfélaga.

Einelti eða kynferðisleg áreitni er ekki liðin hjá HB Granda. Til er aðgerðaráætlun um viðbrögð ef upp kemur grunur um einelti eða áreitni á vinnustað. Félagið hefur ekki sett sér skrifleg viðmið um siðferði, spillingu, mannréttindi eða mútur. Til stendur að bæta úr því sem fyrst og lýkur þeirri vinnu væntanlega á árinu 2018.

27 stéttarfélög og 97% starfsfólks eru í stéttarfélagi

Starfsmannaskemmtanir

Fjölskylduhátíð HB Granda í Húsdýra- og fjölskyldugarðinum

Í ágúst ár hvert hefur HB Grandi boðið starfsfólki og fjölskyldum þeirra til hátíðar í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Starsfólk hefur verið mjög ánægt með hátíðina og mætingin jafnan verið með eindæmum góð. Árið 2017 komu um 650 manns í garðinn. Líkt og fyrri ár fengu öll börn, 13 ára og yngri, dagpassa í leiktækin. Boðið var upp á andlitsmálun og blöðrudýr og allir fengu grillaðar pylsur. Ísvagn frá ísbúðinni Valdís var einnig á svæðinu og vakti mikla lukku.

Jólatónleikar HB Granda

HB Grandi býður starfsfólki árlega á jólatónleika. Árið 2017 var um að ræða jólatónleika Siggu Beinteins og voru þeir haldnir í Eldborgarsal Hörpu. HB Grandi fyllti salinn af starfsfólki og gestum þeirra. Að auki bauð félagið þeim björgunarsveitum sem HB Grandi hefur hvað mest samskipti við og einnig starfsfólki Slysavarnarskóla sjómanna.

Árshátíð HB Granda

Árshátíð HB Granda er iðulega haldin daginn fyrir sjómannadaginn, enda er það eina helgin þar sem allir sjómenn félagsins hafa tækifæri til að sækja hátíðarhöldin.

Árshátíðin 2017 var haldin 10. júní í Gullhömrum og heppnaðist virkilega vel. Um 500 manns mættu á árshátíðina og skemmtu sér saman.

Starfsmannafélög

Starfsmannafélag HB Granda er fyrir allt starfsfólk HB Granda til sjós og lands. Tilgangur félagsins er að efla félagslíf og kynningu meðal félagsmanna með skemmtiferðum, skemmtunum og hvers konar menningar- og fræðsluefni sem félagsmönnum má að gagni verða. Starfsmannafélagið hefur undanfarin ár haft það að markmiði að vera með haust- og vorfagnað, jólahlaðborð og jólaball fyrir börn starfsfólks. Starfsmannafélagið á sumarbústað á Flúðum sem leigður er út allt árið um kring.

Starfsfólk HB Granda á Vopnafirði geta verið í starfsmannafélagi HB Granda eða þá í starfsmannfélagi HB Gra​nda á Vopnafirði. Ástæðan fyrir þessu er fjarlægðin á milli Reykjavíkur og Vopnafjarðar, en einnig sú að starfsfólk Vopnafjarðar getur yfirleitt gert lítið með Starfsmannafélagi HB Granda nema í apríl - júní þar sem annar tími fer í vaktir.

Starfsmannafélagið á Vopnafirði var endurvakið í tíð Tanga í kringum árið 2002, en þá hafði það legið niðri í mörg ár.

Makar starfsfólks hafa rétt á að borga í félagið, en þá er dregið tvöfalt gjald af starfsfólki .