Samfélags- og samstarfsverkefni
Verk á mynd er eftir Ólaf Lárusson og er í eigu Listasafns Reykjavíkur.

Samfélags- og samstarfsverkefni

Það eykur öryggi og lífsgæði starfsfólks að halda vinnusvæðinu og umhverfi okkar snyrtilegu. Um leið sköpum við gott andrúmsloft kringum starfsstöðvar HB Granda. Það er stefna HB Granda að styðja við alla þá starfsemi á Vopnafirði, Akranesi og í Reykjavík sem tengist á einhvern hátt félaginu eða er mikilvæg fyrir samfélögin. HB Grandi vill styðja íslenska menningu og samfélag og hefur tekið þátt í ýmsum verkefnum er varða uppbyggingu og innviði samfélagsins.

Samstarf og styrkir

HB Grandi tekur virkan þátt í að stuðla að uppbyggingu og framþróun í samfélaginu með því að styðja við góð málefni. Verkefnin eru fjölbreytt og með þeim styður HB Grandi m.a. öflugt slysavarna- og björgunarstarf, menningarstarf og nýsköpun og fræðslu tengda sjávarútvegi.

HB Grandi styður við valin verkefni, sem efla samfélagið, vernda umhverfið og auka nýsköpun, með því að styrkja félagasamtök og fyrirtæki sem stuðla að jákvæðri samfélagsþróun. Styrktarbeiðnir berast félaginu í gegnum heimasíðu félagsins þar sem styrkjanefnd tekur beiðnir til umfjöllunar.

Styrkjum HB Granda má skipta upp í eftirfarandi flokka:

  • Efling atvinnulífs
  • Fræðsla og nýsköpun
  • Íþróttir, æskulýðsstarf og forvarnir
  • Samfélagsmál
  • Menning og listir
  • Umhverfismál

Efling atvinnulífs

Sjávarútvegsráðstefnan

HB Grandi hefur undanfarin ár verið einn af aðalstyrktaraðilum Sjávarútvegsráðstefnunnar. Markmið hennar er að ná saman á einum stað þversniði af greininni til að vinna megi að framförum og sókn. Sjávarútvegsráðstefnan er vettvangur þar sem fólk hittist og styrkir sambönd og samstarf í greininni. Á ráðstefnunni er fjallað um mikilvæg viðfangsefni á sviði sjávarútvegs og standa vonir til þess að hún reynist ráðstefnugestum uppspretta hugmynda og hvatning til góðra verka.

Stjórnmálaflokkar

HB Grandi hefur styrkt þá stjórnmálaflokka til alþingiskosninga sem eiga fólk á þingi og sækja um styrk.

Fræðsla og nýsköpun

Verðlaunasjóður Ásu Guðmundsdóttur Wright

Verðlaun úr Verðlaunasjóði Ásu Guðmundsdóttur Wright eru veitt íslenskum vísindamanni, sem náð hefur framúrskarandi árangri á sérsviði sínu í vísindum eða fræðum og miðlað þekkingu sinni til framfara í íslensku þjóðfélagi. Stofnandi sjóðsins var frú Ása Guðmundsdóttir Wright og gaf hún Vísindafélagi Íslendinga peningagjöf á hálfrar aldar afmæli félagsins hinn 1. desember 1968. HB Grandi er hollvinur sjóðsins og gerir sjóðnum kleift að veita árlega ein veglegustu verðlaun sem veitt eru til vísindamanna hér á landi.

World Seafood Congress

World Seafood Congress var haldið í Hörpu um miðjan september. Meginþema ráðstefnunnar í ár var vöxtur í bláa lífhagkerfinu, en bláa lífhagkerfið er tilvísun í mikilvægi hafsins þar sem veruleg tækifæri liggja til vaxtar, nýsköpunar, rannsókna, markaðssetningar með matvælaöryggi, fæðuöryggi, sjálfbærni og matarheilindi að leiðarljósi. Ráðstefnan var haldin af Matís og er þetta í fyrsta skiptið sem ráðstefnan er haldin á Norðurlöndunum. Vilhjálmur Vilhjálmsson forstjóri hélt erindi um fjárfestingar í veiði og vinnslu ásamt því sem HB Grandi var einn af gullstyrktaraðilum ráðstefnunnar.

Samfélagsverkefni

Góðgerðarmál

HB Grandi styður starfsemi í heimabyggð, bæði í Reykjavík, á Akranesi og á Vopnafirði. Styrkirnir flokkast undir ýmis málefni, en öll tengjast þau samfélagi byggðarinnar á einhvern hátt. HB Grandi hefur stutt Mæðrastyrksnefnd á Akranesi síðustu ár sem og Menntunarsjóð Mæðrastyrksnefndar. HB Grandi styrkti einnig Unicef á Íslandi í tengslum við neyðaraðstoð Rohingja árið 2017. Einnig hefur félagið stutt við Félag heyrnarlausra síðustu árin.

Fjölskylduhátíð HB Granda á sjómannadaginn

HB Grandi heldur árlega fjölskylduhátíð á athafnasvæði félagsins í Reykjavík á sjómannadaginn. Boðið er upp á skemmtidagskrá fyrir alla fjölskylduna með frábærum skemmtikröftum ásamt veitingum.

Öryggi og slysavarnir

Slysavarnarfélagið Landsbjörg

HB Grandi er stuðningsaðili björgunarsveita á Íslandi, Slysavarnafélagið Landsbjörg er landssamtök björgunarsveita og slysavarnadeilda á Íslandi og ein stærstu sjálfboðaliðasamtök á Íslandi. Markmið starfseminnar er að koma í veg fyrir slys og bjarga mannslífum og verðmætum. HB Grandi vill styðja við bakið á öflugu slysavarna- og björgunarstarfi bæði til sjós og lands enda treysta sjómenn okkar á björgunarsveitir ef eitthvað bjátar á.

Öryggishópur sjávarútvegsins

Innan Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, SFS, er starfandi öryggishópur sjávarútvegsins sem hefur það markmið að fækka slysum í greininni. Hópurinn tók formlega til starfa í apríl 2016. Forstöðumaður öryggismála HB Granda er formaður öryggishóps SFS en í hópnum eru tíu fulltrúar úr greininni auk þriggja aðila frá SFS. Fulltrúarnir koma frá stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins og eiga það sammerkt að vinna að öryggismálum. Fyrsta verkefni hópsins var að skrifa Öryggishandbók fyrir fiskvinnslur sem nú er aðgengileg á vef SFS og Rannsóknarsjóðs síldarútvegsins sem styrkti verkefnið. Öryggishandbókin er uppflettirit fyrir stjórnendur í sjávarútvegi og er ætlað að tryggja öflugt vinnuverndarstarf innan fyrirtækjanna.

Menning og listir

Marshallhúsið

HB Grandi er eigandi Marshallhússins sem staðsett er á athafnasvæði félagsins í Reykjavík. Marshallhúsið er nýr vettvangur lista við gömlu höfnina í Reykjavík. Húsið var byggt árið 1948 sem síldarbræðsla en hýsir nú Nýlistasafnið, Kling og Bang, Stúdíó Ólafs Elíassonar ásamt vinnustofu og Marshall Restaurant + Bar. Hugmyndina að nýju og breyttu hlutverki Marshallhússins má rekja til arkitektanna sem starfa hjá arkitektastofunni Kurtogpi, þeir Ásmundur Hrafn Sturluson og Steinþór Kári Kárason, en stofan sá um alla arkitektavinnu vegna breytinganna. Verkefnið hófst formlega 19. febrúar 2016 en þá var skrifað undir samninga og hafist handa við framkvæmdir. Marshallhúsið, glæsileg listamiðstöð, var formlega opnuð 18. mars 2017.

Víkin sjóminjasafn

Sjóminjasafnið í Reykjavík var formlega stofnað árið 2004 og opnaði sína fyrstu sýningu í júní 2006. Hlutverk þess er að safna og miðla sögu og minjum tengdum sjó og sjómennsku, einkum þeim sem gildi hafa fyrir sögu Reykjavíkur. Safnið er staðsett við Grandagarð, í því húnæði sem áður hýsti Bæjarútgerð Reykjavíkur (BÚR), einn af forverum HB Granda.

HB Grandi er einn helsti styrktaraðili Sjóminjasafnsins í Reykjavík. Skrifað var undir samstarfssamning árið 2014 til fimm ára. Víkin hefur því getað haldið áfram þeirri uppbyggingu sem hófst á safninu árið 2005.

Þúfa

Árið 2013 efndi HB Grandi, í samstarfi við Samband íslenskra listamanna og Faxaflóahafnir, til samkeppni um nýtt listaverk til að prýða umhverfið við Ísbjörninn, nýja frystigeymslu félagsins sem byggð var sama ár. Fyrir valinu varð verkið Þúfa eftir listakonuna Ólöfu Nordal. Þeir sem ganga upp á toppinn fá að njóta eins tilkomumesta útsýnis yfir Reykjavík sem völ er á. Þúfa var vígð við hátíðlega athöfn þann 21. desember 2013 og er strax orðin að vel þekktu kennileiti í Reykjavík. Árlega heimsækir fjöldi fólks Þúfu og er hún til að mynda ofarlega á þeim lista sem Tripadvisor gaf út árið 2017 yfir áhugaverðustu staði Reykjavíkur.

Heimildarmynd um ísfisktogarann Ásbjörn

Á árinu 2017 var gerð heimildarmynd um ísfisktogarann Ásbjörn sem Engey leysir af hólmi. Ásbjörn var smíðaður árið 1978 og reyndist afburðavel. Þrátt fyrir að hafa verið með þeim minnstu í hópi togara HB Granda var hann iðulega meðal þeirra aflahæstu og var raunar þrettán sinnum aflahæsti ísfisktogari landsmanna, síðast árið 2014. Ásbjörn landaði um 227 þúsund tonnum í 1.542 löndunum; aflaverðmætið um 40 milljarðar króna að núvirði. Heimildarmyndin um Ásbjörn var sýnd í Hörpu á sjómannadaginn og var aðgangur ókeypis. Myndin var einnig sýnd á ÍNN, helgina eftir sjómannadagshelgina. Með gerð myndarinnar vildi HB Grandi varðveita sögu gömlu ísfisktogaranna og deila henni með íslensku þjóðinni.

Umhverfisverkefni

Arctic Circle

HB Grandi er einn af styrktaraðilum Norðurslóðaráðstefnunnar Arctic Circle, eða svokallaður „Strategic Partner“. Arctic Circle er opinn lýðræðislegur vettvangur með þátttöku ríkisstjórna, stofnana, fyrirtækja, háskóla, umhverfissamtaka og annarra sem áhuga hafa á þróun norðurslóða og afleiðingum hennar fyrir framtíð heimsins. Sem slíkur er Arctic Circle stærsti vettvangur sinnar tegundar í heiminum. Formaður Arctic Circle er Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands.

Hafið - Öndvegissetur um verndun hafsins

HB Grandi er einn af stofnaðilum Hafsins, öndvegisseturs um sjálfbæra nýtingu og vernd hafsins. Setrinu er ætlað að vinna að útfærslu hugmynda um verndun hafsins með því að draga úr mengun með grænni tækni. Verkefnið er umfangsmikið og metnaðarfullt og er stutt af fjölmörgum aðilum auk HB Granda. Hafið er vettvangur samstarfs fyrirtækja, opinberra aðila og rannsóknarstofnana sem vilja vinna að hafverndarmálum á alþjóðavettvangi.

Blái herinn

Félagið hefur tvisvar, í tengslum við opnun flokkunarstöðva sinna, stutt starfsemi Bláa hersins, nú síðast á árinu 2017.

Yfirlýsing um markmið í loftslagsmálum

HB Grandi undirritaði, ásamt 103 öðrum íslenskum fyrirtækjum og stofnunum, yfirlýsingu um markmið í loftslagsmálum þann 16. nóvember 2015 í Höfða. Yfirlýsingin var afhent í tengslum við loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem fram fór í París í desember 2015. Reykjavíkurborg og Festa, miðstöð um samfélagsábyrgð fyrirtækja, hafa haldið utan um yfirlýsingu fyrirtækjanna. Markmið „Loftslagsverkefnisins“ eru að

  • draga úr losun gróðurhúsalofttegunda,
  • minnka myndun úrgangs,
  • mæla árangurinn og gefa reglulega út upplýsingar um stöðu ofangreindra þátta.

Íþróttir, æskulýðsstarf og forvarnir

HB Grandi styrkir íþrótta- og æskulýðsstarf í þágu barna og ungmenna á Akranesi og Vopnafirði. Þannig styður félagið við almenna lýðheilsu, bæði líkamlega og andlega.