Hlutverk HB Granda er að hámarka á ábyrgan hátt verðmæti úr þeim sameiginlegu náttúruauðlindum sem félaginu er treyst fyrir. Viðskiptavinum er tryggt stöðugt framboð heilnæms sjávarfangs sem unnið er á hagkvæman hátt úr sjálfbærum stofnum.
HB Grandi framleiðir verðmætar afurðir úr villtum fiski sem aflað er úr hafinu við Ísland. Lögð er rík áhersla á nýsköpun og háþróaða tækni við veiðar og vinnslu sjávarafurða og stöðuga þróun framleiðslunnar. Virðing fyrir umhverfinu og lífríki sjávar liggur til grundvallar starfsemi HB Granda og leggur félagið sig í fram um að nýta auðlindir hafsins af virðingu og fullnýta þann afla sem skip þess færa að landi svo að komandi kynslóðir megi áfram njóta hennar. HB Grandi ber jafnframt ábyrgð gagnvart samfélaginu. Þannig er stefna félagsins sú að starfsemi þess endurspegli ábyrgð gagnvart auðlindum til sjós og lands og samfélaginu sem heild.
HB Grandi er með starfsstöðvar í Reykjavík, á Akranesi og á Vopnafirði og átta fiskiskip í rekstri. Aðalskrifstofur félagsins eru við Norðurgarð í Reykjavík; þar er framkvæmdastjórn botnfisks- og uppsjávarsvið staðsett ásamt viðskiptaþróun, fjármála-, markaðs- og mannauðssviði. Fjöldi stöðugilda voru að meðaltali 839 árið 2017 og spannar hlutverk þeirra alla virðiskeðjuna, þ.e. veiðar, vinnslu, sölu og dreifingu á afurðum félagsins. Félagið er skráð á aðalmarkaði NASDAQ-kauphallarinnar á Norðurlöndum.
Árið 2017 voru afurðir seldar til 38 landa. Sala til hinna tíu stærstu nam yfir 82% af söluverðmætinu. Stærstu markaðssvæðin árið 2017 voru Frakkland, Noregur, Þýskaland, Bretland og Kína. Dótturfélög HB Granda eru Vignir G. Jónsson, Norðanfiskur og Blámar. Félagið á einnig 20% hlutdeild í Deris S.A. í Síle og 33,33% í Laugafiski.
Á árinu 2017 vann framkvæmdastjórn félagsins og starfsfólk þess að stefnumótun í samráði við stjórn félagsins. Tekið var tillit til efnahagslegra, umhverfislegra og samfélagslegra áhrifa. Afrakstur þeirrar vinnu var skjalfest hlutverk, gildi og framtíðarsýn sem samþykkt var af stjórn félagsins. Stefnan er vegvísir fyrir starfsemina og styður við framþróun félagsins. Hún er akkeri í ákvörðunartöku og forgangsröðun verkefna. Markmið stefnunar er að auka árangur í starfseminni, bæta stjórnun, verklag og nýtingu auðlinda og auðvelda starfsfólki dagleg störf. Einnig liggur fyrir sóknaráætlun til næstu ára. Eitt af lykilverkefnum HB Granda er innleiðing samfélagsábyrgðar.
Stefna í samfélagsábyrgð hefur verið í undirbúningi á árinu og hafa kynningar og vinnustofur verið haldnar fyrir framkvæmdastjórn og lykilstjórnendur.
Upplýsingar í skýrslunni ná til HB Granda án dótturfélaga fyrir árið 2017, nema annað sé tekið fram. Á árinu varð gerð greining á áhrifum HB Granda og ófjárhagslegum mælikvörðum sem mögulegt er að birta á þessum tímapunkti. Mælikvörðum mun fjölga þegar unnið verður áfram að því að bæta þau upplýsingakerfi sem ná yfir ófjárhagslega mælikvarða félagsins. Skýrslan tekur saman þá vinnu og þekkingu sem byggð hefur verið upp hjá félaginu, en er ekki tæmandi úttekt á öllum þeim áhrifum sem HB Grandi hefur á umhverfi, samfélag og efnahag. Allar upplýsingar eru í samræmi við þá þekkingu sem við höfum yfir að búa á þeim tíma sem skýrslan er rituð. Umhverfisupplýsingum er safnað beint frá samstarfsaðilum inn í umhverfisgagnagrunn og uppgjör fer fram hjá þriðja aðila.
Síðustu ár hefur HB Grandi verið að þróa þekkingu innanhúss á málefnum samfélagsábyrgðar og unnið að því að kortleggja áhrif og ábyrgð félagsins. Sú vegferð er enn í gangi og mun vera um óákveðin tíma. Skýrslan er ekki endurskoðuð af þriðja aðila að þessu sinni.
Samfélagsskýrsla HB Granda er unnin samkvæmt viðmiðum Global Reporting Initiative, G4. Uppgjör á umhverfisþáttum er unnið úr umhverfisstjórnunarkerfi félagsins, Klappir Core. Upplýsingar um félagslega og efnahagslega þætti koma úr upplýsingakerfum HB Granda.
Hér fyrir neðan má finna tilvísunartöflu Global Reporting Initiative (GRI) fyrir Samfélagsskýrslu HB Granda 2017.