Öryggi

HB Grandi hefur ávallt látið sér annt um öryggi og heilbrigði starfsfólks síns. Í ársbyrjun 2016 var ráðið í nýja stöðu forstöðumanns öryggismála. Var þetta gert í því skyni að skerpa á málaflokknum. Starfið heyrir beint undir forstjóra HB Granda, sem leiðir vinnuverndarstarf félagsins.

Áætlun HB Granda um öryggi og heilbrigði á vinnustað

Áhættumat leggur grunninn að öllu vinnuverndarstarfi. Mikil áhersla er lögð á að það sé skilvirkt og öflugt og fari fram í samræmi við lög.* Í áhættumati er sett fram aðgerðaáætlun með tímasettum aðgerðum og ábyrgðaraðilum. Áætlun um öryggi og heilbrigði er sett fram á skriflegu formi og markar stefnu varðandi aðbúnað, öryggi og hollustuhætti á vinnustað.

Öryggis- og vinnuverndarstefna

HB Grandi er traustur vinnustaður þar sem stjórnendum og starfsfólki er annt um vellíðan og heilbrigði samstarfsfólks síns. Öryggisstjórnunarkerfi félagsins nær yfir alla starfsemi þess, skráningu og rýni slysa og atvika. Áhættumat og öryggisreglur eru lykilþættir, auk þess sem markviss þjálfun og fræðsla gegna mikilvægu hlutverki.

Við hjá HB Granda einsetjum okkur að vinna markvisst að öryggis- og vinnuverndarmálum og skapa starfsfólki öruggt vinnuumhverfi.

  • Við berum öll ábyrg þegar kemur að öryggis og vinnuverndarmálum.
  • Við berum virðingu hvert fyrir öðru og pössum hvert upp á annað.
  • Við erum stolt af því að vinna á vinnustað þar sem öryggismál eru tekin alvarlega.

Ábyrgð

Til að tryggja skilvirkni vinnuverndarstarfs er mikilvægt að starfsfólk þekki ábyrgðarsvið sitt hvað varðar öryggis- og vinnuverndarmál. Allir bera ábyrgð á eigin öryggi og öllu starfsfólki er skylt að tilkynna um hættu á vinnustað og fara eftir settum reglum. Öryggisfulltrúum ber að vinna að bættu öryggi á vinnustað og fylgjast með því að ráðstafanir komi að tilætluðum notum. Fyrsti stýrimaður er yfirmaður öryggismála um borð og stjórnar hann björgunaræfingum. Framleiðslu-, verksmiðju- og skipstjórar bera ábyrgð á öryggis- og vinnuverndarmálum, hver á sinni starfsstöð. Framkvæmda- og útgerðastjórar bera ábyrgð á öryggis- og vinnuverndarmálum, hver á sínu sviði. Forstöðumaður öryggismála ber ábyrgð á öryggis- og vinnuverndarmálum félagsins og er fulltrúi forstjóra hvað þennan málaflokk snertir.

Til að ná frekari árangri í öryggismálum og fækka slysum er mikilvægt að halda umræðu um öryggismál á lofti, minna hvert annað á það þegar öryggisatriði gleymast, samræma vinnulýsingar milli starfsstöðva, auka skilvirkni áhættumats og bæta vinnuaðstöðu starfsfólks enn frekar.

Öryggisfulltrúar

Hjá félaginu eru alls um 70 öryggisfulltrúar sem eiga sæti í öryggisnefndum. Alls eru öryggisnefndirnar þrettán hjá félaginu. Öryggisfulltrúi er samheiti yfir annars vegar öryggisverði sem tilnefndir eru af stjórnanda viðkomandi starfsstöðvar og hins vegar öryggistrúnaðarmenn sem kosnir eru af starfsfólki. Hlutverk öryggisfulltrúa er að sjá til þess að málefni öryggis- og vinnuverndarmála séu í samræmi við lög* og stefnu félagsins.

* Lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980. Reglugerð um ráðstafanir er stuðla að bættu öryggi og heilsu starfsmanna um borð í skipum nr. 200/2007

Hjá félaginu eru alls um 70 öryggisfulltrúar sem eiga sæti í 13 öryggisnefndum.

Áhættumat

Áhættumat er úrbótaverkfæri sem þarfnast stöðugrar endurskoðunar. Uppfæra ber áhættumatið ár hvert og einnig þegar breytingar verða á húsnæði/búnaði eða ef slys verða. Einnig ber að framkvæma áhættumat áður en farið er af stað í nýframkvæmdir. Í áhættumati er leitað að hættum, við þeim brugðist og viðeigandi ráðstafanir gerðar. Við framkvæmd áhættumats er hvatt til þátttöku starfsfólks sem þekkir umhverfi og aðstæður hvað best. Alvarleiki er metinn út frá líkum og afleiðingum og í kjölfarið er verkefnum forgangsraðað og gerðar viðeigandi úrbætur. Starfsfólk tekur virkan þátt í matinu og er upplýst um hlutverk sitt varðandi framkvæmd og eftirfylgni. Starfsfólk hefur aðgang að áhættumati. Hér fyrir neðan má sjá stutt myndband um áhættumat. Myndbandið er aðgengilegt á innri vef félagsins og er hluti af öryggis- og nýliðafræðslu.

Forvarnir

Öryggis- og vinnuverndarmál eru mikilvægur þáttur í fræðsluáætlun HB Granda. Í nýliðafræðslu fer starfsfólk félagsins vandlega yfir atriði er varða öryggi og vinnuvernd.

Forvarnir og fræðsla um borð í skipum fer að stórum hluta fram í gegnum nýliðafræðslu sem skipstjórnendur sinna og einnig á reglulegum björgunaræfingum þar sem öll áhöfn skips tekur þátt í æfingunni. Lögð er áhersla á að skipstjórnendur haldi reglulegar björgunaræfingar, og það minnst tólf sinnum á ári.

Öryggisdagur HB Granda 2017

Öryggisdagur HB Granda var haldinn í annað sinn 24. október 2017. Þar komu saman um 60 stjórnendur og öryggisfulltrúar til sjós og lands. Forstjóri HB Granda setti fundinn með ávarpi. Forstöðumaður öryggismála fór yfir ábyrgð, stefnu, nýjar öryggisreglur og slys. Tæknistjóri skipa fór yfir öryggismál skipa. Verkstjóri í Norðurgarði greindi frá stöðu öryggismála og lýsti bættri öryggismenningu í fiskiðjuveri. Einnig greindi framleiðslustjóri uppsjávarfrystihúss á Vopnafirði frá nýlega yfirstaðinni rýmingaræfingu. Þá var nýtt rafrænt slysaskráningarkerfi kynnt.

Slys

Hjá HB Granda er lögð áhersla á að öll slys og atvik séu skráð og eru verkferlar og vinnulýsingar þar að lútandi kynnt fyrir starfsfólki. Öll slys og atvik eru skráð með rafrænum hætti á innri vef HB Granda. Fjarveru- og umönnunarslys starfsfólks í landi eru tilkynnt til vinnueftirlits ríkisins, Sjúkratrygginga Íslands og tryggingafélags. Fjarveruslys starfsfólks á sjó eru tilkynnt til Sjúkratrygginga Íslands, rannsóknarnefndar sjóslysa og tryggingarfélags.

  • Fjarveruslys eru slys þar sem starfsmaður er óvinnufær í einn dag, auk þess dags sem slysið varð.
  • Frítímaslys eru slys sem verða í frítíma starfsfólks eða á leið til eða frá vinnu.
  • Umönnunarslys eru slys þar sem starfsmaður fær umönnun frá heilbrigðisstarfsmanni eða skipstjórnanda í tilfelli sjómanna, en sinnir vinnu daginn eftir.
  • Skyndihjálparslys eru slys þar sem starfsmaður fær aðstoð á staðnum, t.d. plástur eða skolun efna á húð. Skyndihjálparslys eru oftast ekki tilkynningarskyld.

Lögð er aukin áhersla á forvarnarstarf með skráningu atvika/næstum slysa.

Næstum slys er hættulegt tilvik þar sem aðstæður voru með þeim hætti að hætta var á slysi. Nánari skilgreiningar sem flokkast undir næstum slys eru hættulegt verklag þar sem tækjum eða búnaði er ranglega beitt, öryggisbúnaður ekki notaður, vinnureglum ekki fylgt eða önnur háttsemi sem getur leitt til slysa, og hættulegar aðstæður sem skapast vegna umhverfisaðstæðna sem ekki tengjast beint tækjum eða útbúnaði fyrirtækisins.

Áhættuþættir í starfsemi HB granda

Með tilkomu rafrænnar slysaskráningar aukast möguleikar á úrvinnslu gagna til muna. Tilkynnt slys voru færri árið 2017 en árið 2016.

Slys 2016 - 2017

Samtals voru tilkynnt 82 slys árið 2016, þar af 58 slys í landi og 24 á sjó. Árið 2017 voru tilkynnt 58 slys, þar af 42 í landi og 17 á sjó.

Árið 2017 hófst með sjómannaverkfalli sem lauk í febrúar og skýrir mikinn mun á slysatíðni milli ára í janúar og febrúar.

Orsök áverka eftir tegund slyss

Þegar rýnt er í öll skráð slys 2016-2017 má sjá að fjarveruslys urðu helst vegna högga af einhverju tagi. Einnig eru alvarleg slys tengd hnífum og því þegar starfsmaður klemmist nokkuð tíð.

Upplýsingar sem þessar eru mikilvægar og miðast forvarnarstarf félagsins að því að lágmarka þessar hættur.