Í þessum kafla verður tæpt á nokkrum álitamálum sem komið hafa upp á árinu 2017.
Það er yfirlýst stefna HB Granda að stunda ábyrga verðmætasköpun úr sjávarfangi. Í því felst að hámarka verðmæti úr sameiginlegum náttúruauðlindum sem félaginu er treyst fyrir og gera það á hagkvæman hátt.
Saga HB Granda er saga umbreytinga, nýsköpunar og tækniþróunar. Félagið ætlar sér að halda áfram að móta framtíð sjálfbærs sjávarútvegs á Íslandi.
HB Grandi vill vera til fyrirmyndar í samfélaginu og starfsfólk félagsins leggur sig fram um að vera félaginu til sóma í störfum sínum. Reglulega skapast umræða um samfélagsábyrgð þegar félagið stendur fyrir breytingum á starfseminni. Jafnvel þó að þær breytingar, sem félagið ákveður að framkvæma, kunni að vera umdeildar, þá er þeim ávallt ætlað að styrkja fyrirtækið sem heild og tryggja áframhaldandi vegferð þess og allra sem þar starfa.
Kjaraviðræður á milli Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) og stéttarfélaga sjómanna voru samningsaðilum erfiðar.
Með gerð kjarasamninga af hálfu SFS við stéttarfélög sjómanna í nóvember 2016 var verkfalli stéttarfélaga sjómanna frestað. Sjómenn felldu samningana í rafrænni atkvæðagreiðslu sem stóð í fjórar vikur og hófst ótímabundið verkfall á skipum félagsmanna SFS og þar með skipum HB Granda þann 14. desember 2016.
Í júní 2016 höfðu náðst samningar við Farmanna- og fiskimannasamband Íslands vegna starfa skipstjórnarmanna á fiskiskipum, og því voru það mikil vonbrigði þegar til sjómannaverkfalls kom í desember 2016.
Verkfall sjómanna stöðvaði veiðar og vinnslu hjá HB Granda sem og öðrum sjávarútvegsfélögum. Hart var tekist á og mikill þrýstingur settur á samningsaðila enda ríkir hagsmunir í húfi. Starfsemin hófst ekki að nýju fyrr en eftir að samningar tókust loks 19. febrúar 2017, tíu vikum síðar.
Stöðvun starfseminnar olli miklu tekjutapi fyrir HB Granda og sjómenn félagsins. Einnig varð starfsfólk landvinnslunnar fyrir launaskerðingu meðan það beið verkefnalaust heima. Félagið tók ákvörðun um að bæta þá skerðingu upp að mestu með því að greiða því starfsfólki föst laun á tímabilinu.
HB Grandi virðir rétt sjómanna til verkfalls og treystir því að slík ákvörðun sé aldrei tekin af léttúð. Félagið viðurkennir jafnframt ábyrgð sína sem samningsaðili. Sú ábyrgð felst í því að horfa til heildarhagsmuna og verja sem best markaðsstöðu og rekstrarhæfi félagsins á meðan reynt er til þrautar að ná ásættanlegum samningi fyrir báða aðila.
Sjómenn eru mikilvæg kjölfesta í starfsemi félagsins. Það er HB Granda því mikið kappsmál að efla náið og faglegt samstarf við sjómenn um launamál, öryggismál, aðbúnað og annað er viðkemur sjómannsstarfinu.
Viðamesta breyting á starfsemi sem HB Grandi réðst í á árinu 2017 var að flytja botnfiskvinnslu félagsins frá Akranesi og sameina hana vinnslunni í Reykjavík. Ljóst var að tap hlaust af því að reka tvö fiskiðjuver í stað eins á sama atvinnusvæði en HB Grandi var með aðstöðu til að vinna botnfiskafla félagsins í Reykjavík.
Þessi breyting leiddi til uppsagna 92 starfsmanna af þeim 270 sem voru í störfum hjá félaginu á Akranesi. Leitast var við að útvega öllum, sem þess óskuðu, störf að nýju og tókst það vonum framar. Af 92 uppsögnum fengu 50 störf á öðrum starfsstöðvum HB Granda eða dótturfélögum á Akranesi, 5 hættu vegna aldurs eða veikinda, 37 sóttu ekki um störf sem í boði voru hjá HB Granda en um áramót voru 20 af þeim komin með aðra vinnu.
Strax og áform félagsins voru tilkynnt fór í gang umræða þar sem deilt var hart á HB Granda og félagið sakað um að vera ekki samfélagslega ábyrgt.
Ákvarðanir sem þessar eru ekki teknar af léttúð. Horft hafði verið til efnahags-, samfélags- og umhverfislegra þátta og taldi félagið óábyrgt að ráðast ekki í þessar breytingar. Félaginu ber skylda til að leita ávallt leiða til að hagræða í rekstri og draga ekki úr hófi að bregðast við taprekstri. HB Granda var því skylt að grípa til viðeigandi aðgerða þótt slíkar aðgerðir kynnu að verða umdeildar.
Á árinu 2017 hófst botnfiskvinnsla á nýjan leik á Vopnafirði. Síðustu tíu ár hafði starfsemi félagsins á Vopnafirði eingöngu snúist um vinnslu á uppsjávarfiski en samdráttur sem var fyrirsjáanlegur gaf til kynna lengri hlé milli vertíða. Við þær aðstæður er hætt við að fólk hugsi sér til hreyfings og flytjist brott af staðnum sé ekki næga atvinnu að hafa. Var það því HB Granda mikið kappsmál að vera áfram öflugur atvinnuveitandi á Vopnafirði. Botnfiskvinnslan var endurnýjuð frá grunni og fjárfest í nýjum vinnslulínum.
Í því skyni að tryggja afla til vinnslunnar, og það án þess að skerða afla til annarra starfstöðva félagsins, festi HB Grandi kaup á aflahlutdeild sem svara til tæplega 1.600 þorskígildistonna af Hafnarnesi VER í Þorlákshöfn. Það er mat HB Granda að þessi breyting hafi verið nauðsynleg. Atvinnuframboð á Vopnafirði er takmarkað og því var félaginu nauðsynlegt að tryggja starfsfólki sínu á Vopnafirði nægt framboð atvinnu allt árið um kring.
Á árinu var frystiskipið Þerney RE selt og við það fækkaði frystiskipum úr þremur í tvö. Á árinu var einnig samið um smíði á nýju frystiskipi sem er nógu öflugt til að leysa tvö skip af hólmi og verður það afhent um mitt ár 2019. Á seinni hluta ársins 2017 voru því aðeins gerð út tvö frystiskip á vegum félagsins en ísfiskskipin voru fjögur talsins. Samtals voru gerð út sex skip til botnfiskveiða frá nóvember 2017. Þrjú þeirra eru ný og hátæknivædd og hófst útgerð þess fyrsta, Engeyjar, haustið 2017. Útgerð Akureyjar mun hefjast í ársbyrjun 2018 og áformað er að útgerð Viðeyjar hefjist vorið 2018. Þau koma öll í stað þriggja eldri skipa, Ásbjarnar, Ottós N. Þorlákssonar og Sturlaugs H. Böðvarssonar.
Um er að ræða viðamestu nútímavæðingu á sviði botnfiskútgerðar sem HB Grandi eða forverar félagsins hafa nokkru sinni ráðist í. Samtals verða gerð út sex skip til veiða á botnfiski en fyrir rúmum áratug voru þau tíu talsins. Óhjákvæmilegt er að fækkun skipa leiði af sér fækkun sjómanna. Við sölu Þerneyjar var allri áhöfn skipsins, alls 54 sjómönnum, sagt upp störfum. Var aðeins hægt að útvega hluta áhafnarinnar stöðum á öðrum skipum félagsins þar sem stöðugildum hefur fækkað samhliða aukinni tæknivæðingu.
Með afkastameiri skipum og vinnslum, þar sem erfiðustu störfin hafa verið sjálfvirknivædd, má auka framleiðni og er það forsenda þess að félagið geti lagt sinn skerf til samfélagsins en jafnframt tryggt starfsfólki sínu öruggt vinnuumhverfi og samkeppnishæf laun. Þessar breytingar á byggingu skipa og sú tækniþróun, sem nú á sér stað í íslenskum sjávarútvegi, mun auka samkeppnishæfni íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja á alþjóðavísu og um leið hafa jákvæð áhrif á umhverfið og öryggi sjómanna. Með nýjum skipum er stefnt að því að draga verulega úr alvarlegum slysum sem og álagstengdum sjúkdómum. Mörg slys til sjós hafa orðið í lestum skipa en í nýju ísfisktogurunum eru sjálfvirkar lestar sem eru mannlausar. Eykur slíkt til muna öryggi áhafnarinnar og bætir vinnuaðstöðu.
Stjórnendur HB Granda eru stoltir af starfsfólki sínu og tekur félagið ábyrgð sína sem atvinnuveitandi alvarlega. Þess vegna er sú hagræðing í rekstri botnfiskskipa félagsins og í botnfiskvinnslunum, sem fram fór á árinu 2017, nauðsynleg til að styrkja félagið sem heild og tryggja áframhaldandi vegferð þess og allra sem þar starfa.
Það er verklag hjá HB Granda og telst til ábyrgra fiskveiða að nýta allan afla sem kemur í veiðarfæri fiskiskipa félagsins til að skapa sem mest verðmæti úr aflanum.
Fuglar og ýmsar sjávarlífverur lenda stundum í veiðarfærum skipa og fer það eftir því hvers konar veiðar eru stundaðar. Skip HB Granda hafa ekki fengið fugla í veiðarfærin en einstaka sinnum fá togarar félagsins hákarl. Hákarlinn er hirtur til vinnslu. Uppsjávarveiðiskip félagsins fá stundum hnúfubak í nótina og geta slíkar uppákomur tafið veiðar á meðan verið er að stugga honum frá. Veiðum er hagað á þann hátt að reynt er að lágmarka líkur á að hnúfubakur fari í veiðarfæri.
Íslensk stjórnvöld setja strangar reglur um vigtun og skráningu sjávarafla og leggur starfsfólk HB Granda sig í líma um að fara eftir þeim.
Það er mikið hagsmunamál fyrir HB Granda sem og íslenskan sjávarútveg og þjóðina alla að ástand fiskistofna sé heilbrigt og upplýsingar um fiskveiðar og umgengni við vistkerfi hafsins séu traustar, rekjanlegar og gagnsæjar.
Botnfiskveiðar HB Granda fara svo til eingöngu fram með botnvörpu. Veiðarnar fara ávallt fram í samræmi við íslensk lög og eru allar lokanir virtar, hvort sem um tímabundnar lokanir á svæðum vegna hrygningar eða vegna viðkvæms lífríkis botnlífvera.
HB Grandi tekur þátt í tveimur þróunarverkefnum sem hafa þann tilgang að ná betri árangri við botnvörpuveiðar. Annað nefnist „Breiðvarpan“ og er samvinnuverkefni HB Granda og Hampiðjunnar. Hitt verkefnið er þróun á nýrri gerð toghlera í samvinnu við ECCO toghlera.
Bæði verkefnin hafa þann tilgang að auka framleiðni félagsins með því að auka afla á sóknareiningu, ná fram hærra aflaverðmæti, lækka eldsneytiskostnað og draga úr kolefnislosun.
Forsvarsmenn HB Granda telja að botnvarpan verði áfram gjöfulasta veiðarfærið fyrir botnfisk á Íslandsmiðum, eða þar til önnur og betri tækni kemur fram.