Samfélagsskýrsla HB Granda 2017
Það er metnaður félagsins að öll starfsemi þess sýni í verki ábyrgð gagnvart auðlindum sjávar og samfélaginu öllu
Vilhjálmur Vilhjálmsson
Forstjóri HB Granda

Ávarp forstjóra

Það er með miklu stolti sem ég kynni fyrstu samfélagsskýrslu HB Granda. Hér er ekki aðeins um að ræða fyrstu skýrslu félagsins í þessum efnum, heldur jafnframt fyrstu samfélagsskýrslu íslensks sjávarútvegsfélags. Það er metnaður félagsins að öll starfsemi þess sýni í verki ábyrgð gagnvart auðlindum sjávar og samfélaginu öllu. Þetta kemur skýrt fram í því hlutverki sem skilgreint var í stefnumótun félagsins á árinu: Ábyrg verðmætasköpun úr sjávarfangi.

Íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið stuðlar að sjálfbærum veiðum og ábyrgri umgengni um fiskistofna. Gott ástand helstu nytjastofna sýnir að við erum á réttri leið. Ávallt hefur legið til grundvallar starfsemi félagsins að fara eftir þeim reglum sem um starfsemina gilda. Eins og fram kemur í skýrslunni, þá teljum við að ábyrgð félagsins nái utan um mun fleiri þætti en einungis viðkomu fiskistofna.

Við lítum ekki á þá vakningu, sem orðið hefur um samfélagsábyrgð fyrirtækja, sem tímabundna tískubylgju, heldur tækifæri fyrir félagið til að efla þá grunnhugsun sem starfsemin þarf að byggjast á. Hér á ég við öflugan rekstur sem leggur sitt af mörkum til samfélagsins og hefur lágmarksáhrif á umhverfið.

Samfélagsábyrgð og birtingarmyndir hennar eru ekki festar í kerfi. Samfélagsábyrgð byggist á hugtökum og mælikvörðum sem eru sumir hverjir nýir af nálinni og eru fræðin enn að mótast. Á sama hátt hefur skilningur okkar verið að mótast síðustu ár. Þegar farið var í stefnumótun innan félagsins ríkti einhugur innan stjórnendateymisins um að samfélagsábyrgð yrði að liggja til grundvallar þeirri vinnu. Sá einhugur kom einnig skýrt fram þegar stærri hópar starfsfólks félagsins komu að stefnumótuninni á seinni stigum.

Ég er sannfærður um að starfsfólk félagsins er tilbúið í frekari vegferð á sviði samfélagsábyrgðar enda þarf hún að eiga sér stað hjá félaginu í heild og þar með talið öllu starfsfólki þess. Við byggjum ábatasaman rekstur á sjálfbærum sjávarútvegi sem er forsenda þess að HB Grandi geti lagt sinn skerf til samfélagsins og jafnframt tryggt starfsfólki sínu öruggt starfsumhverfi og samkeppnishæf laun.

Það mun taka tíma að kortleggja þau áhrif sem starfsemi félagsins hefur. Fyrirtæki hafa áhrif á samfélög og samfélög hafa áhrif á starfsemi fyrirtækja. Brýnt er að átta sig á þeim sameiginlegu skyldum sem hljótast af slíku samspili, en í því felast einnig mikil tækifæri. Við erum viss um að sókn á þau mið muni gefast vel fyrir félagið og samfélagið í heild, þó að hér sé ekkert fyrirframgefið handrit fyrir hendi og teikna þurfi sjókortin jafnóðum.

Innan HB Granda hefur farið fram mikil og vönduð vinna við útfærslu samfélagsábyrgðar, stefnumótun félagsins og ritun samfélagskýrslunnar sem hér birtist. Ég kann öllum þeim sem lögðu hönd á plóg bestu þakkir fyrir gott starf.